Margt bendir til að megnið af þeim tæpu 63 milljörðum króna sem teknir hafa verið út af séreignasparnaði á síðustu þremur árum hafi farið í neyslu, hugsanlega haldið uppi einkaneyslu síðustu misserin. Nú hefur dregið úr einkaneyslu samhliða því sem verulega hefur hægt á kaupmætti launa auk þess sem dregið hefur úr áhrifum einskiptisaðgerða stjórnvalda.

Greining Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu í dag, að heimild til að taka út séreign í lífeyrissjóðum hafi runnið út fyrr í haust. Nú standi hins vegar til að framlengja heimildina fram til 1. janúar árið 2014.

Lagt er til í frumvarpi fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálunum að heimildin verði framlengd til 1. janúar árið 2014. Samkvæmt því er heimilt að taka út allt að 6,25 milljónir króna.

Greining Íslandsbanka segir þetta jákvætt skref hvað vöxt einkaneyslu snerti:

„Þessi aðgerð mun styðja við vöxt einkaneyslu á næsta ári. Í fjárlögunum er gert ráð fyrir að úttekt séreignarsparnaðar skili 1,5 milljarða króna skatttekjum á næsta ári og má út frá því lauslega áætla að úttektin gæti leitt til u.þ.b. 0,5% meiri einkaneyslu á næsta ári en ella væri.“