Fjögur stærstu endurskoðunarfyrirtæki landsins högnuðust samtals um 945 milljónir króna á rekstrarárinu 2009. Þar af nam hagnaður KPMG um 498 milljónum króna, eða meira en PwC, Deloitte og Ernst & Young högnuðust samanlagt.

Ekki er hægt að sjá á ársreikningi KPMG hver velta fyrirtækisins var á rekstrarárinu 2009 (frá 1. október 2008 til 30. september 2009). Þar er þó hægt að sjá að það hagnaðist vel á árinu eða um 498 milljónir króna. Það var þó töluvert minni hagnaður en á rekstrarárinu 2008 þegar KPMG hagnaðist um 536,9 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi KPMG sem skilað var inn til ársreikningaskráar 27. september 2010. Þá voru liðnir tæpir ellefu mánuðir frá því að stjórn KPMG hafði staðfest reikninginn.

Alls vinna um 230 manns hjá KPMG samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins. Hluthafar eru 31 talsins.

Mikil hækkun á arðgreiðslum

Stjórn KPMG lagði til í ársreikningnum að þeir fengju greiddar út 455 milljónir króna í arð vegna frammistöðu fyrirtækisins á rekstrarárinu 2009. Þeir fengu 88,4 milljónir króna greiddar út í arð á árinu 2009 og 43,4 miljónir árið eftir.

Eignir KPMG námu samtals 2,2 milljörðum króna og höfðu lækkað lítillega á milli ára. Skuldirnar voru um 1,2 milljarðar króna og höfðu lækkað um tæplega 170 milljónir króna á milli ára. Að langmestu leyti er um skammtímaskuldir að ræða.

Eftir bankahrun hefur KPMG meðal annars sinnt ráðgjöf fyrir sveitarfélagið Álftanes og unnið að verðmati á eignum peningamarkaðssjóða föllnu bankanna ásamt KPMG. Á uppgangsárum íslensks viðskiptalífs var fyrirtækið meðal annars endurskoðandi Milestone, Baugs og FL Group. Húsnæði og bílar utan reiknings KPMG tiltekur einnig skuldbindingar sem það hefur undirgengst en koma ekki í efnahagsreikningi þess í ársreikningnum. Þar er um að ræða leigusamning vegna húsnæðis að Borgartúni 27 sem gildir til septemberloka 2018. Núvirt skuldbinding KPMG vegna hans nemur um 1,3 milljörðum króna. Um 14% af húsnæðinu hafa verið endurleigð.

Þá leigði KPMG 44 bifreiðar til allt að þriggja ára. Skuldbinding vegna þeirra samninga nam um 58 milljónum króna í septemberlok 2009.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.