„Einkavæðing bankanna var pólitísk en ekki fagleg,“ sagði Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, þegar hann lagði fram tillögu um rannsókn á einkavæðingu bankanna á Alþingi í dag. Í tillögunni felst að sett verður á laggirnar þriggja manna nefnd sem á m.a. að bera saman söluna á Landsbankanum, Búnaðarbankanum og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins á sínum tíma við sölu á opinberum fyrirtækjum á hinum Norðurlöndunum. Nefndin á að skila af sér skýrslu um málið eigi síðar en 1. janúar 2013.

Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks VG og einn flutningsmanna tillögunnar, svaraði því í umfjöllun sinni um hana starf nefndarinnar ærið og tímann sem hún fái til rannsóknarinnar skamman. Hann benti jafnframt á að það sé umhugsunarverð hvernig Landsbankinn og Búnaðarbankinn, sem síðar nefndist Kaupþing, hafi fallið tæpum sex árum eftir einkavæðingu þeirra með slíkum þunga að efnahagslífið riðaði til falls.

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Björn benti ennfremur á að upphaflega hafi það verið pólitísk stefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að einkavæða bankana. Þegar á hólminin var komið hafi ekki verið stuðst við hana heldur aðrir hagsmunir hafði að leiðarljósi.

„Horfið var frá pólitískum yfirlýsingum og aðrir hagsmunir látnir ráða för,“ sagði hann og rifjaði upp að Valgerður Sverrisdóttir þá viðskiptaráðherra hafi oftsinnis sagt að formenn flokkanna, þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, hafi tekist á um það hvernig skipta hafi átt bönkunum upp. Í framhaldinu sagði hann nauðsynlegt að rannsaka hvers vegna horfið var frá stefnu flokkanna og ákveðið að selja bankana ákveðnum hópum.

Hrunið ekki bundið við Ísland

Guðlaugur Þ. Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fagnaði rannsókninni. Hann gagnrýndi hins vegar ummæli þeirra Björns og Skúla og sagði sölu bankanna ekki hafa orsakað hrunið.

„Því miður er hrunið ekki bundið við Ísland, það væru góða fréttir, en ekki fyrir okkur. Fjármálastofnanir eru að hrynja um allan heim,“ sagði hann.