Þrátt fyrir góð laun og heillandi starfsumhverfi eiga tæknifyrirtæki á borð við Apple og Amazon í vandræðum með að halda starfsfólki sínu innan fyrirtækisins. Samkvæmt greiningarfyrirtækinu Paysa er meðalstarfsaldur starfsmanna tíu stærstu tæknifyrirtækja Bandaríkjanna undir tvö ár. Business Insider greinir frá.

Facebook er eina fyrirtækið þar sem meðalstarfsaldur er yfir 2 ár en meðal starfsaldur innan fyrirtækisins er 2,02 ár. Uber rekur svo lestina en meðalstarfsaldur innan fyrirtækisins er einungis 1,23 ár. Það þýðir að Travis Kalanick, stofnandi fyrirtækisins sker sig úr, en hann lét af störfum sem forstjóri Uber eftir sex og hálft ár. Þess ber þó að geta að stofnendur starfar í flestum tilfellum lengur hjá tækni fyrirtækjum en aðrir starfsmenn.

Hér má sjá meðalstarfsaldur hjá tíu stærstu tæknifyrirtækjum Bandaríkjanna:

  • Facebook - 2,02 ár.
  • Google - 1,9 ár.
  • Oracle - 1,89 ár.
  • Apple - 1,85 ár.
  • Amazon - 1,84 ár.
  • Twitter - 1,83 ár.
  • Microsoft - 1,81 ár.
  • Airbnb - 1,64 ár.
  • Snap Inc. - 1,62 ár.
  • Uber - 1,23 ár.