Ásmundur Tryggvason hefur stýrt sviði fyrirtækja og fjárfesta innan Íslandsbanka í tvö ár en áður fór hann fyrir fyrirtækjaráðgjöf bankans. Undanfarið ár hefur verið viðburðaríkt á sviðinu en fyrirtækjaráðgjöf bankans átti metár auk þess sem verðbréfamiðlun bankans var leiðandi annað árið í röð í heildarveltu á verðbréfamarkaði með hlutabréf og skuldabréf.

Ásmundur segir ýmsar áskoranir hafa falist í kórónuveirufaraldrinum og ekki síst í lágvaxtaumhverfinu sem hefur skapast. „Það hefur verið krefjandi verkefni að verja vaxtamun í þessu ástandi, en hann hefur farið lækkandi hjá okkur. Við höfum ekki viljað fara í neikvæða innlánsvexti og höfum við því þurft að vega á móti með aðhaldi í kostnaði og áherslu á að auka þóknanatekjur,“ segir Ásmundur og bætir við að vel hafi gengið að auka þóknanatekjur á öllum sviðum markaðsviðskipta á síðasta ári.

Hann segir mikið hafa verið að gera í útlánastarfseminni í fyrra. „Það var talsverð eftirspurn eftir útlánum, en ný útlán til fyrirtækja námu rúmlega 130 milljörðum en við glímdum einnig við uppgreiðslur hjá stærri félögum, sérstaklega á síðari hluta árs, sem skýrast fyrst og fremst af styrkleika skuldabréfamarkaðarins.“

Þótt styrkleiki skuldabréfamarkaðarins hafi skapað áskoranir á útlánahliðinni hefur hann á sama tíma skapað tækifæri innan fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfamiðlunar. „Við höfum verið að aðstoða fyrirtæki við að sækja fé á skuldabréfamarkað í gegnum fyrirtækjaráðgjöfina og verðbréfamiðlunina. Okkar markmið er að aðstoða félögin við að ná sem hagkvæmastri fjármögnun hvort sem hún næst með beinum útlánum eða á skuldabréfamarkaði,“ segir Ásmundur.

Verðbréfamiðlun Íslandsbanka var á síðasta ári leiðandi í heildarveltu á verðbréfamarkaði með hlutabréf og skuldabréf, annað árið í röð. „Við erum mjög stolt af því að hafa verið með hæstu markaðshlutdeild annað árið í röð þegar litið er þvert á eignaflokka í verðbréfamiðlun og stærst í skuldabréfum á árinu,“ segir Ásmundur en hann telur að árangurinn helgist af góðu orðspori og mikilli reynslu innan teymisins auk þess sem bankinn hafi verið stór í verðmyndun á markaði í gegnum viðskiptavaktir. Þá hafi verið góður gangur í eignastýringu í fyrra.

„Við jukum í raun eignir í stýringu langt yfir áætlun á sama tíma og ávöxtunin var mjög góð. Lágvaxtaumhverfið hefur haft þau áhrif að eignastýringin er aðeins að færast úr áhættuminni eignum yfir í áhættumeiri eignir eins og hlutabréf. Það er eitthvað sem hófst í fyrra og mun ábyggilega halda áfram á þessu ári.“

Vinda ofan af áhættuvörnum

Faraldurinn hafði mikil áhrif á gjaldeyrismiðlun bankans, enda lækkaði velta á gjaldeyrismarkaði verulega, en þrátt fyrir aðstæður átti gjaldeyrismiðlun gott ár. „Minni umsvif á gjaldeyrismarkaði skapaði áskoranir fyrir gjaldeyrismiðlunina en þökk sé mjög sterkum tengslum okkar við útflutningsfyrirtækin og traustri hlutdeild í fjármagnsflæði, tókst okkur að vinna upp tekjutapið sem faraldurinn leiddi af sér,“ segir Ásmundur.

Að sögn Ásmundar var stærsta verkefnið á sviði gjaldeyrismiðlunar að vinna þétt með viðskiptavinum sínum, einkum í ferðaþjónustu, og aðstoða félögin við að vinda ofan af áhættuvörnum í gjörbreyttum aðstæðum. „Í upphafi síðasta árs vorum við, í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, að hefja kynningu á gjaldeyrisvalréttum sem tæki til að draga úr áhættu ferðaþjónustunnar. Verkefnið breyttist aftur á móti fljótt úr því að aðstoða félögin við að verja tekjustreymi sitt, yfir í að glíma við algjöran tekjubrest. Þannig höfum við aðstoðað félögin við að vinda ofan af áhættuvörnum sínum og hefur það gengið vel. Styrkleiki gjaldeyrismiðlunar hefur legið í sterkum tengslum okkar við útflutningsfyrirtækin þannig að félögin geti átt viðskipti í gegnum gjaldeyrisborðið hjá okkur án þess að hafa mikil áhrif á gengi krónunnar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .