Stefán Broddi Guðjónsson forstöðumaður greiningardeildar Arion banka segir það ekki óalgengt að mikil lækkun stórs fyrirtækis á markaði lækki markaðinn í heild sinni .

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um í morgun lækkaði gengi bréfa Icelandair umtalsvert í morgun í kjölfar þess að þeir birtu afkomuviðvörun .

Þegar þetta er ritað hefur lækkun á gengi hlutabréfa félagsins frá því að markaðir opnuðu numið 19,68% sem er aðeins minni en þegar það var sem lægst en þá hafði það lækkað um meira en fjórðung.

Lykilfélag í kauphöllinni

„Þetta er lykilfélag í kauphöllinni, mjög stórt félag, sem er að gera ráð fyrir töluvert lakari horfum fyrir þetta ár heldur en markaðurinn gerði ráð fyrir," segir Stefán.

„Nú eru menn að melta áhrifin, en það er ekkert óalgengt að þegar mjög stórt félag sendir frá sér upplýsingar sem eru mun neikvæðari en markaðurinn átti von á, að það hafi mun víðari áhrif."

Stefán bendir á að félagið tiltaki nokkur atriði í afkomuviðvöruninni en almennt virðist horfur í flugrekstri í heiminum vera erfiðari heldur en var.

Aukin óvissa í heimsmálum og meiri samkeppni

„Olíuverð er eitt af því, aukin óvissa í heimsmálum er annað og svo er samkeppnin náttúrulega mjög mikil, þetta undirstrikar hversu sveiflukenndur flugrekstur í heiminum er," segir Stefán sem segir ómögulegt að segja til um hvort að markaðurin sé að bregðast of hart við.

„Þeir tala um að gripið verði til aðgerða í rekstrinum. Svo geta menn farið að velta fyrir sér hvort þetta séu einhver skilaboð um ferðaþjónustuna yfir höfuð, en ég held ekki að það sé endilega hægt að lesa það út úr tilkynningu Icelandair."