Þrátt fyrir að seðlabankastjórar heimsins hafi hamast sem óðir menn við fýsibelgi fjármálamarkaða að undanförnu ríkir enn nánast alkul á fjármálamörkuðum. Viðmið á borð við LIBOR-vexti fara hækkandi á meðan bankar halda áfram að hamstra fé og verja sig gegn mögulegum áföllum. Við þetta bætist óvissa um hvort af fyrirhugaðri björgunaraðgerð bandarískra stjórnvalda á fjármálamörkuðum verður og ef svo fer hvaða afleiðingar hún muni hafa. LIBOR-vextir á mánaðarlán í Bandaríkjadölum hækkuðu um 22 punkta í gær og fóru þeir í 3,43%.

Þeir hafa ekki verið hærri síðan í janúar síðastliðnum. Vextir á sambærilegum lánum í evrum hækkaði um 7 punkta og fóru í 4,91%. Það sama gildir um sterlingspundið en LIBOR-vextir á mánaðarláni í pundum eru 5,91%. Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir sérfræðingum að alkul ríki nú á millibankamörkuðum og að fjármálafyrirtæki sitji fast á fé sínu. Mikil eftirspurn banka og fjármálafyrirtækja eftir lausafé um þessar mundir endurspeglast meðal annars í feikilegri umframeftirspurn í skuldabréfaútboðum seðlabanka.

Aldrei hefur verið meiri eftirspurn eftir evrum heldur en í gær þegar Evrópski seðlabankinn bauð út 50 milljarða evra til þriggja mánaða. Andvirði tilboða nam 155 milljörðum evra og voru meðalvextir í útboðinu 4,98%. Vextir í útboði bandaríska seðlabankans á bréfum til 28 daga voru 3,75% og var það 57 punktum hærra en vextir á mánaðarláni í Bandaríkjadal við upphaf vikunnar.

______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .