Lambhagi stefnir á að tvöfalda salatframleiðslu sína með byggingu nýrra gróðurhúsa í Lundi í Mosfellsdal. Þetta staðfestir Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga.

Framleiðsla Lambhaga tvöfaldaðist á síðasta ári og því verður um fjórföldun að ræða hjá fyrirtækinu. Lambhagi hafði 17% hlutdeild á íslenska salatmarkaðnum fyrir tveimur árum. Jörðin Lundur er í eigu Hafbergs í gegnum félagið Lundur farm ehf.

„Þar ætluðum við að fara í þörungaframleiðslu en það verður ekki, heldur ætlum við að fara í búskap. Það er fullt af sóknartækifærum á Íslandi,“ segir Hafberg.

Bygging nýs gróðurhúss í Mosfellsdal hefst á næsta ári og ef allt gengur að óskum getur framleiðsla hafist 2017. Hafberg segir að aukinni stærð fylgi meiri hagkvæmni og þannig lægra vöruverð en ella hefði verið.