Ungverjaland er trúlega það land í Evrópu þar sem verðlag er hagstæðast og það á einnig við fasteignamarkaðinn. Fasteignaverðshækkanir í landinu hafa þó verið örar undanfarin misseri og árið 2006 námu meðaltalshækkanir á eldra húsnæði í Búdapest um 13,2%. Mikil samkeppni er meðal lánastofnana og dæmi um allt að 110% lán miðað við markaðsverð fasteigna.

Samkvæmt tölum rannsóknadeildar Otthon Centrum á húsnæðismarkaði það ár var nokkuð flökt á markaðnum en samt óvenju miklar hækkanir eftir aðeins 4,17% hækkanir árið 2005. Nokkuð misjafnar hækkanir voru þó á milli landssvæða. Á þessu ári hefur ekki verið óalgengt að sjá hækkanir upp á 10-15%, en meðaltalið hefur þó verið lægra eða á bilinu 5-7%. Hækkanir á fjárfestingakostnaði hafa þó verið enn hærri eða að meðaltali 8-9%. Það skiptir því miklu máli fyrir kaupendur að vanda vel val fasteigna sem keyptar eru.

Fasteignamarkaðsvöxturinn í Ungerjalandi hefur verið mikill allt frá árinu 2000. Mikið hefur verið byggt og mikið verið um lánveitingar til nýbygginga.  Um hálf milljón manna tóku umtalsverð lán til nýbygginga frá árinu 2000 til 2005. Urðu jafnframt verulegar verðhækkanir á markaðnum allt til ársloka 2003. Þá voru settar strangari reglur um lánveitingar sem hægði á markaðnum á árunum 2004 og 2005. Hafði þetta einkum áhrif á nýbyggingar. Aukin samkeppni á lánamarkaði ýtti þó undir markaðinn að nýju og hafa um 80% af lántökum verið teknar í svissneskum frönkum sem síðan er breytt yfir í ungverskar forintur. Stærstur hluti þessara lána er til 20 ára.

Samkvæmt tölum Otthon Centrum hefur heldur dregið úr eftirspurnin eftir lánum á þessu ári og er búist við að umfangið verði aðeins minna en í fyrra. Þó var búið að gera 60.000 lánasamninga vegna fasteignakaupa fram til júlíloka 2007. Upphæð þessara samninga nam 286 milljörðum forinta.

110% lán

Samkeppnin á lánamarkaðnum hefur verið mjög mikil. Bankar hafa því reynt að ýta við markaðnum með ýmsum hætti og hefur Allianz Bank t.d. boðið allt að 110% lán miðað við markaðsverð fasteigna. Aðrir hafa farið þá leið að bjóða lengri lánstíma eins og BG Mortgage & Leasing sem býður lán til allt að 40 ára.

Þrátt fyrir minni eftirspurn eftir lánum til fasteignakaupa almenn er búist er við að lán til fjárfestinga í leiguhúsnæði tvöfaldist í Ungverjalandi á þessu ári miðað við árið 2006 og fari í 25 milljarða forinta. Um mitt ár var aukningin þegar orðin 17%. Segir Otthon Centrum þetta benda til að stór fasteignafélög séu í auknu mæli að hasla sér völl á leigumarkaði.

Auðvelt er fyrir útlendinga að fjárfesta í húsnæði í Ungverjalandi og regluverk tiltölulega hagstætt. Þó verða fjárfestar að fá samþykki opinberrar stjórnunarskrifstofu í Búdapest til að mega kaupa. Lögfræðingar ráðleggja útlendingum að skrá fyrirtæki í Ungverjalandi og kaupa síðan fasteignir í gegnum það.

Heimild Viðskiptablaðið.