Hluti lána BNT ehf., móðurfélags N1 hf. eru gjaldfallin. N1 er í sjálfsskuldarábyrgð að fjárhæð 9,2 milljarðar króna vegna lána BNT og tengdum félögum. Í árshlutareikningi N1, sem var gerður opinber í dag, segir að „hluti lána móðurfélagsins eru gjalddallinn en unnið er að endurfjármögnun þeirra í samvinnu við lánadrottna.“

Sjálfsskuldarábyrgðin sem N1 er hærri en eigið fé N1 Hf., en það var 6,4 milljarðar króna í lok júní síðastliðins.  BNT er eignarhaldsfélag´i meirihlutaeigu Einars og Benedikts Sveinssonar. Félagið hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árin 2008 né 2009.

N1 var rekið með 191 milljón króna tapi á fyrstu sex mánuðum ársins 2010.

Íslandsbanki hefur ekki tekið yfir BNT

Ábyrgðin er tilkomin vegna lána sem BNT, sem á 99,9% hlut í N1, tók hjá Glitni til að fjármagna kaup á Olíufélaginu árið 2006. Það var síðan sameinað Bílanausti og úr varð N1. Íslandsbanki heldur í dag á umræddum lánum. Samkvæmt upplýsingum þaðan hefur bankinn þó ekki tekið yfir BNT og vinnur áfram að endurskipulagningu félagsins í samstarfi við núverandi eigendur.

Í mars síðastliðnum sagði Viðskiptablaðsins frá því að stjórnendur N1 hf. hefðu gleymt að færa umrædda sjálfsskuldarábyrgð til móðurfélags síns í ársreikning sinn fyrir árið 2008. Sá reikningum gaf því ekki rétta mynd af ábyrgðum félagsins á þeim tíma. Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í mars að öll lán BNT væru í skilum og að félagið væri enn með jákvætt eigið fé. Nú er ljóst að sú staða hefur breyst og lán BNT hafa gjaldfallið.