Íslenska ríkið hefur greitt upp lán sem Færeyingar veittu Íslendingum í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Lánasamningurinn var undirritaður í mars árið 2009 og nam lánið 300 milljónum danskra króna eða um 6,6 milljörðum íslenskra króna.

Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu er minnt á að Færeyingar voru fyrsta þjóðin sem bauðst til að lána Íslandi eftir efnahagshrunið. Segir í tilkynningunni að stjórnvöld vilji sýna þakklæti í verki með því að efla enn frekar samstarf og tengsl landanna.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að í framhaldi af skuldabréfaútgáfum ríkissjóðs á alþjóðlegum mörkuðum hafi nú um 60% af lánum hinna Norðurlandanna verið forgreidd fyrr á þessu ári. „Forgreiðsla til Færeyja er því í takti við forgreiðslur til annarra Norðurlanda, en samkvæmt lánssamningi átti að hefja endurgreiðslur árið 2013,“ segir í tilkynningunni.