Anna Björnermark, fulltrúi sænskra stjórnvalda í lánaviðræðum Norðurlandanna, segir að hafni Alþingi Icesave-samningunum geti það haft áhrif á samþykkt stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS. Þar með muni það hafa áhrif á útgreiðslu Norðurlandalánanna til Íslendinga.

„Fyrsta greiðslan [frá Norðurlöndunum] verður ekki innt af hendi fyrr en stjórn AGS hefur samþykkt endurskoðunina og greitt sína greiðslu [aðra greiðslu AGS - innsk. blm]," segir hún í samtali við Viðskiptablaðið.

Hún bendir sömuleiðis á að upphaflega hafi verið farið í lánaviðræðurnar milli Norðurlandanna á grundvelli áætlunar AGS og íslenskra stjórnvalda.

Lánasamningar milli Íslendinga og hinna Norðurlandanna voru undirritaðir í Stokkhólmi í gær. Heildarupphæðin hljóðar upp á 1,775 milljarða evra.

Sjá nánar umfjöllun í Viðskiptablaðinu í dag.