Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að í febrúar muni liggja fyrir hvort þau lönd, sem hafa ljáð máls á því að lána Íslendingum vegna fjármálakreppunnar, muni veita lánið eða ekki.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur þegar veitt Íslendingum lán upp á 2,1 milljarð Bandaríkjadala og  til að fylgja eftir skilyrðum sjóðsins hefur verið samþykkt áætlun til tveggja ára.

Framkvæmd áætlunarinnar verður endurskoðuð í febrúar næstkomandi og þá mun koma í ljós hvort þau lönd sem hafa gefið vilyrði fyrir láni, muni veita það eða ekki.

"Það eru ákveðin tímamót sem verða í febrúar hvað þetta varðar," sagði Geir.