Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor segir aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nauðsynlega og löngu tímabæra.

,,Það var reginskyssa af hálfu stjórnvalda að kveðja sjóðinn ekki til strax í vor, þegar forsætisráðherra Bretlands, seðlabankar Norðurlanda og aðrir innan lands og utan hvöttu að því er virðist til þess, enda hefði þá hugsanlega verið hægt að aftra hruni bankanna með tímabundinni endurþjóðnýtingu þeirra í tæka tíð og róttækri endurskipulagningu. Stjórnvöld kusu heldur að humma sjóðinn fram af sér og settu upp hundshaus, svo sem ráða má meðal annars af því, að seðlabankastjóri færði Færeyingum ,,heila þökk og blessun" í furðulegri ræðu sinni hjá Viðskiptaráði um daginn, en hirti ekki um að þakka Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem hefur lagt ómælda vinnu í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans og röska tvo milljarða Bandaríkjadala að auki til að tryggja framgang áætlunarinnar.

Ræða seðlabankastjórans afhjúpar að bankinn hefði heldur kosið skilyrðislaust lán frá Færeyjum, hefði það dugað, en lán gjaldeyrissjóðsins, sem er háð því skilyrði að hagstjórnin sé færð í sómasamlegt horf, svo að Ísland geti staðið í skilum. Það er beinlínis ögrun við fólkið í landinu að óbreyttri seðlabankastjórn sé falið ráðstöfunarvald yfir stórauknum gjaldeyrisforða, svo herfilega sem bankastjórnin hefur farið að ráði sínu fram að þessu. Þessir menn eru beinlínis hættulegir. Þeir hafa sýnt að þeir hafa ekki hugmynd um hvert gengi krónunnar þarf að vera, til að jafnvægi náist í þjóðarbúskapnum á nýjan leik. Þeir eru því vísir til að eyða gjaldeyrisláninu í vonlausa tilraun til að hífa gengið upp fyrir jafnvægismörk í framhaldi af þeirri gengisfölsunarstefnu, sem bankinn hefur fylgt mörg undangengin ár. Ekki fer heldur vel á því að menn, sem mánuðum saman töfðu aðkomu sjóðsins að kreppunni hér með hörmulegum afleiðingum, skuli hafa með höndum samstarfið við sjóðinn, því að þeir eru vísir til að reyna að spilla fyrir því á alla lund. Seðlabankastjórninni verður að víkja frá án frekari tafar. Fyrirhuguð færsla Fjármálaeftirlitsins aftur til Seðlabankans herðir enn á kröfunni um að bankastjórnin víki og ferill hennar verði rannsakaður," segir Þorvaldur.

Að sögn Þorvalds mun ferlið, sem nú er að hefjast, fela í sér náið samstarf milli stjórnvalda og sjóðsins, því að sjóðurinn setur skilyrði um þróun ríkisfjármála og peningamála, sem stjórnvöld þurfa að uppfylla og sjóðurinn mun fylgjast með á þriggja mánaða fresti. ,,Ísland þarf að halda þessi skilyrði til þess að sjóðurinn láti lánið af hendi rakna í umsömdum áföngum. Haldi Ísland ekki samkomulagið, getur sjóðurinn kippt að sér hendinni. Þetta er hefðbundið og þrautreynt fyrirkomulag, sem er ætlað að skapa örvandi umgerð utan um efnahagsáætlunina. Við réttar kringumstæður á gjaldeyrislán frá sjóðnum að vera eins og atómsprengja: menn taka lánið til að þurfa ekki að nota það og skila því aftur ónotuðu í lok samningstímans. Hér virðist þó líklegra, að lánið verði notað til að hafa áhrif á gengisþróunina, þegar krónan verður sett aftur á flot samkvæmt áætluninni."