Hæstiréttur komst í dag að þeirri niðurstöðu að lán, sem Sveitarfélagið Skagafjörður hefði tekið hjá Lánasjóði sveitarfélaga, hefði verið ólögmætt gengistryggt lán.

Með dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna hans, var talið að lán sem sveitarfélagið tók hjá forvera Lánasjóðsins hefði verið í íslenskum krónum, bundið með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla og sú staðreynd að lánveitingin til handa sveitarfélaginu hefði verið fjármögnuð af forvera lánasjóðsins með erlendu lánsfé fékk þeirri niðurstöðu ekki hnekkt.

Þá var við úrlausn ágreinings um uppgjör milli aðilanna vegna endurreiknings hins ólögmæta gengistryggða láns lagt til grundvallar að lánasjóðurinn gæti ekki krafið sveitarfélagið um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann með skírskotun til þess að greiðsluseðlar lánasjóðsins og forvera hans og fyrirvaralaus móttaka þeirra á greiðslum frá sveitarfélaginu, jafngiltu fullnaðarkvittun vegna hlutaðeigandi greiðslna.