Hagnaður Landsbankans á fyrri helming ársins 2010 nam 9,4 milljörðum króna samanborið við 14,3 milljarða króna allt árið í fyrra. Þar af nam hagnaður annars ársfjórðungs tæpum 1,1 milljarði króna.  Rekstrarárangur bankans var í raun enn betri, ef undan er skilin afkomutengd gjaldfærsla til gamla Landsbankans (LBI). Afkoma eftir skatta var þannig 15,4 milljarðar eða sem samsvarar 19,6% arðsemi eigin fjár.

Í tilkynningu frá bankanum segir að annar ársfjórðungur einkenndist af bið eftir dómi Hæstaréttar um lögmæti erlendra lána sem síðan féll 16. júní. Landsbankinn hafi með sérstökum varúðarfærslum tekið tillit til niðurstöðu þess dóms og einnig dóms Hæstaréttar um vaxtaviðmið gengistryggðra lána sem féll 16. september. Vegna þessa gjaldfærði bankinn um 8,3 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi.  Stærstur hluti þeirrar fjárhæðar er vegna virðisrýrnunar lána SP-Fjármögnunar, dótturfélags bankans.

Í tilkynningunni eru þessar tölur og stærðir dregnar sérstaklega fram:

  • Arðsemi eigin fjár var 11,9% en 19,6% fyrir afkomutengda gjaldfærslu til LBI hf.
  • Hagnaður eftir skatta nam 9,4 ma.kr.en 15,4 ma.kr. fyrir þá gjaldfærslu.
  • Vaxtamunur af meðalstöðu heildareigna var 2,6%.
  • Eigið fé bankans var 167 ma.kr.
  • Eiginfjárhlutfall (CAD  hlutfall) var 16,7% samanborið við 16,3% við lok fyrsta ársfjórðungs.
  • Heildareignir bankans voru 1.087 ma.kr.
  • Innlán í hlutfalli við útlán til viðskiptavina voru 61%.
  • Rekstrarkostnaður bankans af reglulegri starfsemi nam 4,9 ma.kr. á öðrum ársfjórðungi.