Bankastjóri FIH í Danmörku segir að fyrirsjáanlegur taprekstur bankans á næstu árum eyði út frekari greiðslum til Seðlabanka
Íslands. Meira en helmingur upprunalegs söluverðmætis FIH hefur því þurrkast út frá því að bankinn var seldur.

Seðlabanki Íslands eygir ekki mikla von um að fá í sínar hendur frekari fjárhæðir vegna sölunnar á FIH bankanum í Danmörku. Söluvirðið var á sínum tíma 5 milljarðar danskra króna og voru 1,9 milljarðar greiddir út við söluna. Útgreiðslan jafngilti 255 milljónum evra,eða 39 milljörðum íslenskra króna sem greiddir voru út við sölu FIH. Eftirstöðvar sölunnar voru fjármagnaðar með seljendaláni en lánið var tengt afkomu FIH til ársins 2014.

„Tapið hefur verið tiltölulega mikið á árunum 2010 og 2011. Ef litið er til þess taps sem við höfum orðið fyrir eftir áramót má sjá að það þýðir – sérstaklega vegna þróunar á íbúðamarkaði í Danmörku, afskrifta sem við höfum tekið sem nú verða að tapi og þess taps sem gert er ráð fyrir á næstu árum – að samningurinn um aukið söluverðmæti verður ekki stór liður í bókhaldinu,“ segir annar af bankastjórum FIH, Bjarne Graven Larsen, í samtali við FinansWatch í Danmörku.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.