Fyrirtækið KÞG Holding ehf. sem er í eigu Kristins Þórs Geirsson, nýráðins framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrarsviðs Glitnis, keypti í vikunni hlut í Glitni fyrir um 994 milljónir króna með láni frá bankanum.

Það lán byggir á sömu skilyrðum og lán til annarra og kaupin eru gerð á markaðsvirði, að sögn Þorsteins Más Baldvinssonar, stjórnarformanns Glitnis.

„Fyrirtæki hans [Kristins] hefur góða eiginfjárstöðu og það hefur lagt fram tryggingar fyrir láninu sem uppfylla að öllu kröfur bankans hvað slíkt varðar," segir Þorsteinn Már í samtali við Viðskiptablaðið.

„Þetta er gert að frumkvæði Kristins og er ekki hluti af hans starfskjörum og ekki er um neina sölutryggingu að ræða. Hann hefur greinilega trú á bankanum og sjálfum sér og því hefur hann ákveðið að kaupa."

Eins og fram hefur komið keypti KÞG Holding 58,8 milljón hluti á genginu 16,9.