Hagnaður Lánasjóðs sveitarfélaga nam 478 milljónum króna á fyrri árshelmingi 2020 en 480 milljónir á sama tímabili árið 2019. Heildareignir Lánasjóðsins í lok annars ársfjórðungs voru 130 milljarðar króna en 117 milljarðar í árslok 2019. Í maímánuði síðastliðnum kom fram í tilkynningu Lánasjóðs sveitarfélaga að aukin fjárþörf sveitarfélaga, vegna COVID, á árunum 2020 og 2021 væri á milli 40-50 milljarðar króna.

Heildarútlán sjóðsins námu 122 milljörðum króna samanborið við 111 milljarða í árslok 2019. Ný útlán á fyrstu 6 mánuðum námu 15,3 milljörðum og er það sagt vera umfram væntingar stjórnenda. Aukningin er sögð vera til komin vegna áætlaðra áhrifa af faraldrinum á fjárhag sveitarfélaga þegar líður á árið.

Eigið fé Lánasjóðsins nam 18,8 milljörðum króna á móti 18,3 milljörðum í árslok 2019. Á aðalfundi sjóðsins þann 12. júní síðastliðinn var ákveðið að greiða ekki arð til hluthafa vegna afkomu ársins 2019.

Hreinar vaxtatekjur Lánasjóðs sveitarfélaga dróst saman um ríflega 21% úr 545 milljónum króna í 429 milljónir. Á sama tíma nær fjórfölduðust aðrar rekstrartekjur og fóru úr 40 milljónum króna í ríflega 159 milljónir. Aukningin skýrist hvað helst af aukningu á hreinum tekjum af fjáreignum og þá aðallega vegna tekna frá ríkisskuldabréfum og ríkisvíxlum.

Óttar Guðjónsson er framkvæmdastjóri og Kristinn Jónasson er stjórnarformaður Lánasjóðs sveitarfélaga.