Skiptastjórar þrotabús Baugs Group telja ekki ástæðu til að vísa málum tengdum lánveitingum úr styrktarsjóðum félagsins árið 2008 til lögreglu. Lánveitingar úr sjálfstæðum styrktarsjóðum eru ólögmætar.

Fram kom í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í febrúar síðastliðnum að Baugur Group átti lítið af handbæru fé síðla árs 2008 eftir að greiddar voru 100 milljónir króna inn á tæplega 900 milljóna króna skuld gagnvart SPRON sem var komin í vanskil. Fyrir vikið hafi fyrirtækið fjármagnað daglegan rekstur og greitt laun með því að slá ólögmæt lán hjá sjálfstæðum styrktarsjóðum sem stjórnendur Baugs áttu sæti í. Þetta voru sjóðirnir Sólarsjóður og Styrktarsjóður. Í málinu var leitað eftir því að rifta greiðslunni til SPRON.

Lánin voru síðar greidd til baka.

Baugur fékk heimild til greiðslustöðvunar í febrúar árið 2009 og var félagið tekið til gjaldþrotaskipta mánuði síðar.

„Í ljósi þess að allar fjárhæðir höfðu verið endurgreiddar og ekki var um verulegar fjárhæðir að ræða, hafa skiptastjórar ekki talið ástæðu til að vísa málum til lögreglu,“ segir Erlendur Gíslason, skiptastjóri þrotabús Baugs.