Íslandsbanki lánaði norska fyrirtækinu Havila Shipping 475 milljónir norskra króna, jafnvirði um 7 milljarða íslenskra króna, árið 2013. Fyrirtækið, sem starfar á sviði þjónustu við olíuiðnað, hefur gengið í gegnum mikla rekstrarerfiðleika og á nú í viðræðum við kröfuhafa sína um endurskipulagningu skulda. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir þá vinnu ganga ágætlega.

„En auðvitað tekur þetta alltaf aðeins lengri tíma en maður áætlar.Fyrsta samkomulagið sem var lagt á borðið var ekki samþykkt af öllum, þannig að það þarf að vinna að nýjum leiðum í því,“ segir hún. Aðspurð segir hún Íslandsbanka hafa veð í eignum Havila.

Birna segir vöxt útlána til erlendra aðila hafa verið í takt við almennan vöxt útlána. Bankinn hafi stefnu varðandi Norður-Atlantshafið og vandi mjög valið á þeim verkefnum sem hann tekur þátt í. „Við höfum verið að einblína á sjávarútveg sérstaklega, höfum verið að taka þátt í verkefnum erlendis varðandi það. Þar komum við að borðinu með mikla þekkingu og spennandi verkefni sem við höfum verið að taka þátt í einmitt á þessum ársfjórðungi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .