Útlán og eignarleigusamningar ýmissa lánafyrirtækja námu rúmum 895 milljörðum króna í lok júní 2008 og höfðu aukist um rúma 10 milljarða króna í mánuðinum, samanborið við aukningu upp á rúma 35 milljarða króna mánuðinn á undan. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Seðlabanka.

Vísitölubundin skuldabréf hækka um 81 milljarð

Útlán í formi gengisbundinna skuldabréfa námu 107 milljörðum króna í lok júní en í sama mánuði árið áður námu gengisbundin skuldabréf 127 milljörðum króna og hafa þau því lækkað um 20 milljarða króna milli ára. Gengisbundin skuldabréf eru skuldabréf þar sem höfuðstóllinn breytist í samræmi við breytingar á gengi þess gjaldmiðils sem skuldabréfið er miðað við.

Vísitölubundin skuldabréf námu tæpum 580 milljörðum króna í lok júní en námu á sama tíma árið áður rúmum 499 milljörðum króna. Vísitölubundin skuldabréf hafa því hækkað um tæpan 81 milljarða króna á einu ári. Með vísitölubindingu skuldabréfs er jafnan átt við að höfuðstóll skuldabréfsins breytist mánaðarlega eftir því sem breytingar verða á verðlagi (vísitölu neysluverðs). Heimilt er að vísitölubinda skuldabréf sem eru til 5 ára hið minnsta.