Viðræður við einn helsta lánadrottin Eikar fasteignafélags hf. hafa nú siglt í strand, þar sem hann hefur synjað félaginu um skilmálabreytingu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eik til Kauphallarinnar en frá því að íslensku bankarnir voru teknir yfir af Fjármálaeftirlitinu hefur Eik átt í viðræðum við lánadrottna sína um fjárhagsstöðu félagsins. Markmið viðræðnanna hefur verið að leysa úr þungri greiðslubyrði félagsins, í kjölfar breyttrar stöðu á íslenskum fasteignamarkaði.

Eikarmenn segja höfnun lánadrottins Eikar óneitanlega koma á óvart í ljósi þess að sjóðsstreymi félagsins standi undir öllum vaxtagreiðslum þessa árs og næstu ára, skv. varfærinni áætlun. Þá hafi bókfært eigið fé Eikar verið yfir tveir milljarðar þann 30. júní s.l.

„Þrátt fyrir sterkt sjóðsstreymi er ljóst að sökum þeirrar lækkunar á leigu sem átt hefur sér stað á fasteignamarkaðinum, getur félagið ekki staðið við umsamdar afborganir,“ segir í tilkynningunni.

„Í ljósi þess að félagið er með jákvætt sjóðsstreymi var talið víst að Eik uppfyllti helstu forsendur þess að greiðslubyrði félagsins yrði aðlöguð í samræmi við verklagsreglur lánastofnanna. Höfnun stærsta lánadrottins félagsins setur því óneitanlega óveðtryggðar kröfur í félagið í uppnám, þar með talið þann skuldabréfaflokk sem skráður er í kauphöllinni. Á meðal eigenda slíkra krafna eru íslensku lífeyrissjóðirnir.“

Í tilkynningunni kemur fram að frá upphafi hafi Eik rekið mjög varfærnislega fjárfestingastefnu. Rekstur félagsins gangi út á að kaupa og leigja fasteignir, en frá árinu 2006 dró verulega úr fasteignakaupum félagsins þar sem forsvarsmenn félagsins töldu að ekki væri inneign fyrir verðþróun markaðarins, eins og síðar kom á daginn.

Þá hafi félagið jafnframt forðast erlendar lántökur og er meginþorri skulda félagsins í íslenskum krónum.

„Markvisst hefur verið unnið að því að draga úr rekstrarkostnaði félagsins á undanförnum misserum, en hafa ber í huga að stór hluti rekstrarkostnaðarins er fastur kostnaður sem á rætur sínar að rekja beint til rekstrarins,“ segir í tilkynningunni.

„Þrátt fyrir erfitt markaðsumhverfi hefur útleiga fasteigna félagsins gengið framar vonum og hafa skráðar fyrirspurnir til félagsins aldrei verið fleiri.“

Þá kemur loks fram að í ljósi stöðunnar munu forsvarsmenn fyrirtækisins leita leiða, í samráði við eigendur félagsins, til þess að reyna að koma í veg það tjón sem kann að myndast hjá óveðtryggðum kröfuhöfum fari félagið í þrot.