Lánakjör sem ríkissjóði bjóðast á innlendum skuldabréfamarkaði í dag eru það hagstæðustu sem þekkjast frá því að skipulegur fjármagnsmarkaður hóf starfsemi hér á landi. Ávöxtunarkrafa  skuldabréfa hefur verið afar lág undanfarna mánuði og farið lækkandi.

Í markaðsupplýsingum frá Lánasýslu ríkisins segir að ástæðurnar séu margvíslegar. Lækkun stýrivaxta hafi áhrif og frekari væntingar um lækkanir hafi þrýst ávöxtunarkröfu niður. Þá eru fáir aðrir en ríkissjóður að gefa út skuldabréf. Fyrirtæki, bankar, Íbúðalánasjóður og sveitarfélög gefi einungis út brot af þvi sem þau gáfu út fyrir bankahrunið.

Hluti erlendra fjárfesta mun selja um leið og kostur gefst

Eftirspurn eftir skuldabréfum er á sama tíma stöðug og segir að fjárfestar leggi meiri áherslu á örugga fjárfestingu. Áhættufælni hafi aukist og það sjáist best á því að innlendir verðbréfasjóðir fjárfesta nánast eingöngu í ríkistryggðum verðbréfum, segir í markaðsupplýsingum.

„Að lokum halda gjaldeyrishöftin aftur af hækkun ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði þar sem innlendir og erlendir aðilar eru læstir inni með fjármagn sitt hérlendis. Þannig eru t.d. innlendum lífeyrissjóðum takmörk sett varðandi nýjar fjárfestingar erlendis, sem hefur yfirleitt verið hluti af fjárfestingastefnu þeirra. Einnig er nokkuð ljóst að hluti þeirra erlendu aðila sem eiga nú ríkisvíxla og ríkisbréf þurfa vegna eigin fjárfestingastefnu og versnandi lánshæfiseinkunn ríkissjóðs að selja bréfin um leið og þeir eiga þess kost.“

Ríkissjóður nýtir sér hagstæð kjör

Þau hagstæðu lánakjör sem ríkissjóði bjóðast hafa verið nýtt til að lengja í lánasafninu og draga þar með úr endurfjármögnunaráhættu á næstu árum. Segir að þannig verði ríkissjóður betur undirbúinn þegar gjaldeyrishöft verða afnumin. Þá er fyrirsjáanlegt að skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs muni dragast saman á næstu árum. Það muni auðvelda öðrum útgefendum að sækja sér lánsfé á innlendum markaði.

Lífeyrissjóðir halda að sér höndum

Einungis var haldið eitt útboð ríkisbréfa í ágúst og í boði voru tveir flokkar. Annar var nýr tveggja ára flokkur óverðtryggðra ríkisbréfa en hitt útboðið var stækkun á útgefnum verðtryggðum ríkisbréfum.  Útboðsskilmálar voru með hefðbundnum hætti þar sem lægsta samþykkta verð (hæsta samþykkta ávöxtunarkrafa) réð söluverði útboðsins.

Bankarnir voru stærstu kaupendur í útboðinu. Í markaðsupplýsingum frá Lánasýslunni segir að rétt sé að hafa í huga að aðrir fjárfestar kaupi oft bréf af bönkunum í gegnum eftirmarkaðinn. Í verðtryggða flokknum keyptu lífeyrissjóðir einungis fyrir 400 milljónir króna en tekið var tilboðum fyrir 7,3 milljarða króna að nafnvirði sem jafngildir 3,35% ávöxtunarkröfu.

Segir að svo virðist sem að lífeyrissjóðir haldi að sér höndum þegar raunávöxtunarkrafa í útboðum fari undir 3,5%, en það er sú krafa sem sjóðirnir nota við núvirðisreikning lífeyris og framtíðariðgjalda.

„Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að mikil eftirspurn annarra, t.d. verðbréfasjóða hefur dugað vel til að mæta útgáfuþörf ríkissjóðs. Útlendingar voru ekki beinir kaupendur í þessu útboði en hafa ber í huga að þeir eins og aðrir fjárfestarar kaupa oft bréf í kjölfar útboða af bönkunum í gegnum eftirmarkaðinn.“