Straumur-Burðarás hefur ráðið fjóra banka til að sækja 175 milljónir evra, sem samsvarar rúmlega 15 milljörðum króna, á sambankalánamarkað í Evrópu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðins.

Heimildarmenn blaðsins á fjármálamarkaði í London segja að bankinn greiði nú mun meira fyrir fjármagnið en á sama tíma fyrir tveimur árum, en gátu ekki gefið nákvæmar skýringar á því hvers vegna fjármögnunarkostnaður bankans er hærri nú.

Lánið skiptist í tvo hluta og tengjast vaxtakjörin BBB-mínus lánshæfismati bankans frá matsfyrirtækinu Fitch Ratings. Vaxtakjörin breytast í takt við breytingar á lánshæfismati fyrirtækisins, sem er einu þrepi lægra en lánshæfismat Landsbanka Íslands og tveimur þrepum lægra en lánshæfismat Kaupþings og Glitnis, sé miðað við lánshæfiseinkunnir viðskiptabanakanna þriggja frá Moodys Investors Service.

Nýja lánið skiptist í tvo hluta. Annar hlutinn er til tólf mánaða og þarf Straumur að borga 35 punkta yfir EURIBOR-vexti, sem eru millibankavextir í Evrópu, en hinn hlutinn er til þriggja ára og eru vaxtakjörin 67,5 punktar yfir EURIBOR. Til samanburðar voru vaxtakjör bankans fyrir tveimur árum 45 punktar yfir EURIBOR, en bankinn tók 200 milljón evra lán til þriggja ára í desmember árið 2005.

Kaupþing sótti fjármagn á sambankalánamarkað í desember í fyrra. Hins vegar tók bankinn veltilán (e. revolver) til þriggja ára, með möguleika á að framlengja til fimm ára. Fyrir heimildina borgar Kaupþing 12 punkta yfir EURIBOR, en 29,5 punkta ef heimildin er nýtt.

Fjármögnunarkostnaður bankanna hækkaði verulega í kjölfar umróts á íslenskum fjármálamarkaði í byrjun árs 2006, sem rekja má til neikvæðarar umfjöllunar erlendra greiningaraðila um íslensku bankana. Sérfræðingar benda þó á að aðgengi bankanna að erlendu fjármagni sé gott. "Bætt upplýsingagjöf stjórnenda til erlendra aðila og arðsamur rekstur, sem endurspeglaðist í ársfjórðungsuppgjörum bankanna, átti mestan þátt í að tryggja áframhaldandi gott aðgengi bankanna að erlendu fjármagni," segir greiningardeild Glitnis.

Þýsku bankarnir BayernLB og Commerzbank, belgíski bankinn Fortis Bank og austurríski bankinn RZB hafa umsjón með sölu á sambankaláni Straums til annarra banka á sambankalánamarkaði.