Cristobal Montoro, fjármálaráðherra Spánar, sagði í útvarpsviðtali í morgun að lánamarkaðir væru lokaðir og spænska ríkið ekki fjármagnað sig með skuldabréfaútáfu.

„Álagið segir okkur að spænska ríkið, og landið allt, verður ekki með aðgang að mörkuðum þegar kemur að því að endurfjármagna skuldir okkar,“ sagði ráðherrann í viðtalinu. „Álagið segir í raun að lánamarkaðir séu lokaðir Spáni, verkefnið er að opna dyrnar að nýju og endurvinna traust á mörkuðum, hjá lánadrottnum“.

Ráðherrann hvatti félaga sína á evrusvæðinu að hraða stuðningi við verst settu banka svæðins. Tekur Montoro þar með undir óskir margra samráðherra sinna um beina aðstoð við spænska banka í kjölfar mikla erfiðleika Bankia, þriðja stærsta banka landsins.

Álag á spænsk ríkisskuldabréf til 10 ára hefur haldist fyrir ofan 6% í meira en þrjár vikur. Hæst fór það í 6,5%. Það stendur nú í 6,32%. Til samanburðar má nefna að álag á þýsk ríkisskuldabréf til 10 ára er 1,2%.

Varnaðarorð ráðherrans minna um margt á erfiðleika Grikklands, Portúgals og Írlands áður en þar var óskað formlega eftir neyðaraðstoð frá ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Bankastjóri Santander segir að litla aðstoð þurfi

Emilio Botín forstjóri Santander-bankans segir að Spánverjar þurfi ekki mjög háar fjárhæð til að endurfjármagna bankakerfið. Segir hann að 40 milljarðar evra nægi.

Sérfræðingar í greiningardeildum telja að fjárhæðin sé allt að 90 milljarðar evra.

Bíll Ferrari merktur Santander bankanum í bak og fyrir.
Bíll Ferrari merktur Santander bankanum í bak og fyrir.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Santander bankinn veitir Ferrari liðinu, auk fleiri liða, og Formúlu 1 mótaröðinni háa styrki á hverju ári. Einhverjum finnst eflaust að peningunum sé betur varið í að greiða upp lán, frekar en að leita alltaf á náðir skattgreiðenda þegar vantar aur.