Landsbanki Íslands hefur samþykkt að fjármagna kaup stjórnenda belgíska pökkunarfyrirtækisins Blagden Packaging á félaginu með 275 milljón evra brúarláni (25 milljarðar króna), sagði Robert Verwoerd, annar stjórnenda útibús Landsbankans í Amsterdam, í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Vewoerd sagði Landbankann hafa fengið hollenska bankann ING til liðs við sig og stefnt er að endurfjármagna brúarlánið þegar formlega hefur verið gengið frá sölu á stáltunnuframleiðslueiningu félagins til bandaríska fyrirtækisins Greif Incorporated.

Stjórnendur samþykktu að kaupa Blagden af fjárfestingasjóðnum Alchemy Partners eftir að ekki náðist að finna aðra kaupendur að fyrirtækinu. Alchemy-sjóðurinn keypti Blagden af fjárfestingasjóðunum Bridgepoint og CVC árið 2004.

Vewoerd sagði ástæðuna fyrir því að stjórnendur Blagden hafi haft samband við Landsbankann vera að hann hafi áður haft umsjón með því að setja upp starfsemi fyrir Bank of Scotlandi í Amsterdam og að skoski bankinn hafi fjármagnað kaup Alchemy á félaginu árið 2004.

"Ég þekkti stjórnendurna og Bank of Scotland endurfjármagnaði fyrirtækið áður en ákveðið var að selja það. Þeir höfðu því samband við okkur þegar þeir voru að leita fjármagni til að styðja við kaupin," sagði Vewoerd.

Kaupverðið hefur ekki fengist staðfest en árlegar tekjur Blagden Packaging eru um 300 milljónir evra. Vewoerd sagði að þegar stáltunnueiningin verður formlega seld, muni verða hægt að létta á skuldum og að ólíklegt verði að Lansbankinn selji hluta lánsins til annarra banka.

Sjö manns starfa skrifstofu Landsbankans í Amsterdam. Vewoerd sagði að starfsmannafjöldinn muni aukast á næstunni og að aðaláherslan sé lögð á skuldsetta fjármögnun og fyrirtækjaráðgjöf.