Lýstar kröfur í þrotabú fasteignafélagsins Nýsis námu 24.685 milljónum króna. Upp í almennar kröfur, sem voru jafnháar lýstum kröfum, fengust 643,5 milljónir króna eða sem nemur 2,6%.

Nýsir var úrskurðaður gjaldþrota í héraðsdómi Reykjaness 13. október árið 2009 og lauk skiptum á þrotabúinu 14. janúar síðastliðinn, að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag.

Undir Nýsi voru nokkur félög, s.s. samnefnd fasteignafélag og félagið Engjateigur. Það kom m.a. að byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu, byggingu skóla í Bretlandi og annarra fasteignaverkefna þar í landi.

Viðskiptablaðið sagði í október árið 2009 í framhaldi af gjaldþroti Nýsis, að eignir væru litlar sem engar en kröfurnar verulegar. Stærstur væri skuldabréfaflokkur upp á 15 milljarða króna sem félagið gaf út í Kauphöllinni í byrjun árs 2008 og var m.a. seldur lífeyrissjóðum. Viðskiptablaðið hafði ekki heimildir fyrir því að nokkru sinni hafi veri greitt af skuldabréfunum. Þegar Nýsir var gjaldþrota var skuldabréfaflokkurinn tekinn úr viðskiptum.