Lánardrottnar Skipta, móðurfélags Símans, sem eiga óveðtryggð skuldabréf félagsins mega búast við því að tapa á bilinu 21% til tæplega 28% krafna sinna á hendur Skiptum í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Þeir fá lítilsháttar greiðslu í formi reiðufjár upp í kröfur. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því að öllum kröfum í skuldabréfaflokkinum verður breytt eða skipt fyrir hlutafé í Skiptum.

Fram kemur í tillögunum að fjárhagsleg endurskipulagning Skipta hafi  eingöngu áhrif á Arion banka sem lánveitanda félagsins og eigendur skuldabréfa sem skráð eru í kauphöll undir heiti SIMI 06 01. Lagt er til að forgangslán Skipta verði endurfjármagnað að fullu með annars vegar láni frá Arion banka upp á 19 milljarða króna og hins vegar með  útgáfu skuldabréfaflokks upp á 8 milljarða. Gert er ráð fyrir að lánin verði tryggð með fyrsta veðrétti í helstu eignum Skipta og dótturfélögum þess.

Þá kemur fram í tillögunum að samkomulagi um endurskipulagninguna að Arctica Finance hf., ráðgjafar Skipta, hafa metið endurheimtur óveðtryggðra kröfuhafa sem 72,3% af uppreiknuðum höfuðstól krafna.  Peningagreiðsla til hvers kröfuhafa upp á tvær milljónir króna auki endurheimtur upp í allt að 78,7% fyrir þá kröfuhafa sem eiga eina einingu í skuldabréfaflokknum SIMI 06 01. Upphafleg fjárhæð skuldabréfaflokksins var kr. 14 milljarðar króna. Verðbættu höfuðstóll flokksins er í dag 23 milljarðar króna.

Kröfum breytt í hlutafé og ný lán tekin

Skuldir Skipta samanstanda að mestu af sambankaláni sem er á gjalddaga í desember og skuldabréfaflokki sem er á gjalddaga í apríl á næsta ári. Arion banki leiðir sambankalánið auk þess sem Íslandsbanki og erlendir bankar koma að því. Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV), Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Gildi lífeyrissjóður, Almenni lífeyrissjóðurinn og smærri fagfjárfestar eru svo eigendur skuldabréfaflokksins.

Fram kemur í tillögunum að eigendur skuldabréfaflokksins hafa fengið 8,4 milljarða króna greidda í vexti. Virði þess hlutafjár sem óveðtryggðir skuldabréfaeigendur fá nú í sinn hlut er kr. 16,6 milljarðar að mati Arctica Finance.

Tillögur að samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu Skipta .