Kröfuhafar huldufélagsins Stíms fá sex krónur fyrir hverjar 16,6 milljónir króna sem þeir lánuðu til félagsins. Heildarkröfur í þrotabú Stíms námu um 24 milljörðum króna. Skiptum lauk um helgina og kom fram á skiptafundi að 15 milljónir króna eru til skiptana fyrir kröfuhafa.

Slitastjórn Glitnis átti nær allar lýstar kröfur í þrotabúið en ríkissjóður minna, samkvæmt upplýsingum Árna Pálssonar, skiptastjóra þrotabús Stíms.

Stím var stofnaði í nóvember árið 2007 og keypti hlutabréf í FL Group og Glitni fyrir samtals 24,8 milljarða króna. FL Group var á þessum tíma stærsti hluthafi Glitnis. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í maí í fyrra.

Ákært í Stím-málinu

Glitnir lánaði 19,6 milljarða til hlutabréfakaupanna á sínum tíma. Lánið var kúlulán til tólf mánaða með 20,15% óverðtryggðum vöxtum og 1% lántökugjaldi. Fram hefur komið að lánveitingin til Stíms hefur verið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara en slitastjórn Glitnis hefur höfðað skaðabótamál á hendur fimm mans vegna lánveitinganna. Hinir stefndu eru fyrrverandi starfsmenn Glitnis. Það eru þau Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, og Guðný Sigurðardóttir, sem var viðskiptastjóri. Hinir tveir sem slitastjórnin stefnir eru þeir sem sátu í stjórn Stíms: útgerðarmaðurinn Jakob Valgeir Flosason frá Bolungarvík og Þórleifur Stefán Björnsson, sem var forstöðumaður fjárstýringar Saga Capital og prókúruhafi Stíms.Fyrrverandi starfsmenn Glitnis sáut í áhættunefnd bankans.