„Þegar ég kom að þessu var eiginlega allt farið. Veðhafar voru búnir að taka eignirnar til sín,“ segir lögmaðurinn Helgi Jóhannesson, skiptastjóri þrotabús verktakafyrirtækisins S12 byggingar ehf. Félagið hét áður Ris ehf. og var með stöndugri byggingafélögum landsins. Fyrirtækið reisti margar íbúðablokkir á höfuðborgarsvæðinu. Þekktasta verk fyrirtækisins var bygging svokallaðrar Löngulínu í Sjálandshverfinu í Garðabæ, en einnig má nefna tónlistarskólann í Kópavogi og fimleikahús á Seltjarnarnesi.

Ris var stofnað árið 1966 og rak upphaflega verslun með byggingarvörur í Ármúlanum. Árið 1968 eignaðist verktakinn Jörundur Kristinsson félagið og flutti það til Garðabæjar. Áherslur breyttust og varð fyrirtækið að verktakarisa. Sonur Jörundar, Kristinn, og tengdasonur hans, Jóhann Guðni Hlöðversson, tóku svo við fyrirtækinu 1993. Árið 2007 keypti svo fyrirtækið Stafna á milli rekstur Ris ehf.

VBS fjárfestingarbanki annaðist ráðgjöf við söluna. Með kaupunum bættist Ris undir fyrirtækjahatt verktakasamstæðunnar Innova ehf. Í stól stjórnarformanns Riss ehf. settist athafnamaðurinn Engilbert Runólfsson, aðaleigandi Innova. Þorgeir Jósefsson varð forstjóri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .