Hugsanlegt er að þrýst verði á eigendur grískra skuldabréfa að þeir afskrifi meiri en þeir hafa þegar gert . Þetta telur Martin Blessing, forstjóri þýska risabankans Commerzbank. Hann bendir á að þar á meðal verði evrópski seðlabankinn, sem fram til þessa hafi ekki viljað taka þátt í skuldbreytingu landsins.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Blessing í dag, að hann telji líklegt að allir kröfuhafar verði boðaðir að borðinu til að koma í veg fyrir þjóðargjaldþrot Grikklands. Commerzbank á engin grísk ríkisskuldabréf, að sögn fréttastofunnar.

Helstu lánardrottnar Grikklands tóku þátt í skuldbreytingu á kröfum sínum í mars síðastliðnum en í henni fólst m.a. að þeir skiptu út skuldabréfum sínum fyrir ný bréf til 30 ára og með lægri vöxtum. Við þetta lækkuðu skuldir Grikklands um 100 milljarða evra. Evrópski seðlabankinn og fáeinir aðrir smærri kröfuhafar tóku ekki þátt í þessu ferli, að sögn Reuters.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sagði í júlí síðastliðnum ólíklegt að þessi umfangsmikla björgunaraðgerð myndi skila tilætluðum árangri, Grikkir gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar og því þörf á frekari aðgerðum.