Lánardrottnum fjárfestingarfélagsins Milestone verður boðin 6% greiðsla af kröfum sínum á hendur félaginu þannig að þeir fái hlutafé í Milestone í réttu hlutfalli við það. Þetta kemur fram í frumvarpi að nauðasamningi félagsins. Nái þessi fyrirætlun fram að ganga gætu lánardrottnar eignast allt hlutafé í Milestone.

Héraðsdómur Reykjavíkur veitti sem kunnugt er nýverið félaginu heimild til að leita nauðasamninga.

Í úrskurði héraðsdóms segir að helstu eignir félagsins í lok apríl hafi verið rétt rúmir fimm milljarðar króna. Helstu skuldir við aðra en tengda aðila hafi verið um 79,6 milljarðar króna.

Helstu skuldir við tengda aðila hafi verið ríflega 760 milljónir króna.

Fjörutíu og átta eiga kröfur á félagið

Viðskiptabanki félagsins Glitnir banki hf. er eigandi um það bil 55% af lánum á hendur félaginu, að því er fram kemur í úrskurðinum, en Milestone átti ásamt tengdum aðilum, þegar bankinn féll í október, um 7% hlut í Glitni.

Fram kemur í úrskurðinum að fjöldi lánardrottna sé 48 og að nú þegar hafi 18 þeirra sem eigi um 80% krafnanna samþykkt að félagið fari þá leið að leita nauðasamninga.

Í úrskurðinum er vísað í beiðni Milestone til að leita nauðasamninga og segir í henni að félagið hafi orðið fyrir miklum fjárhagslegum áföllum vegna þeirrar fjármálakreppu sem nú ríki í heiminum. Kreppan hafi m.a. leitt til þess að fjármögnunarmöguleikar félagsins hafi lokast og verðfall orðið á eignum þess.

Viðhaldi frekar verðmætinu

„Meginástæða þess að lánardrottnar og stjórnendur Milestone telji rétt að leita fremur nauðasamninga en fara með félagið í gjaldþrotaskipti sé að með því sé kröfuhöfum frekar unnt að viðhalda verðmæti þeirra eigna sem félagið eigi," segir í úrskurðinum.

Í því samhengi sé sérstaklega horft til eignar félagsins í Staterbank í Makedóníu „sem hugsanlega gæti orðið lítils virði við gjaldþrot Milestone þar sem eftirlitsaðilar í Makedóníu mundu líklega yfirtaka starfsemi við gjaldþrot Milestone," segir í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Eins og fram kom í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins um Milestone í vetur er eignarhlutur Mileston í Statarbank 91%. Hann var þá í gögnum Milestone metinn á um 1,5 milljarða króna.