Landsbankinn hefur farið yfir hugsanleg áhrif þess ef bankinn yrði talinn bera ábyrgð á því að ákvæði um verðtryggingu yrðu ekki talin gild eða ef upplýsingagjöf í tengslum við veitingu verðtryggðra lána væri talin ófullnægjandi. Slík niðurstaða væri til þess fallin að lækka virði þess hluta verðtryggðs lánasafns bankans sem væri háð einhverjum slíkum ágöllum. Kemur þetta fram í tilkynningu frá bankanum.

Í dag komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að það samrýmist ekki tilskipun ESB að miða við 0% verðbólgu við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi er ekki 0%.

Í tilkynningu segir að eiginfjárhlutfall bankans sé hins vegar afar hátt og myndi bankinn áfram vera vel yfir eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins þrátt fyrir slíka niðurstöðu. Þá yrði slík niðurstaða ekki til þess að draga úr getu bankans til þess að endurgreiða sértryggð skuldabréf bankans sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi.