Lánasjóður sveitarfélaga hefur samþykkt að lána Hafnarfjarðarbæ allt að sex milljörðum króna til að endurfjármagna lán sveitarfélagsins við erlenda félagið FMS. Hafnarfjörður gerir ráð fyrir því að erlendar skuldir sveitafélagsins verði greiddar upp að mestu fyrir árslok 2015, en líklegt er að Lánasjóður sveitafélaga komi að frekari endurfjármögnun sveitarfélagsins á næstunni.

Í tilkynningu um lánið segir Hafnarfjarðarbær að sveitarfélagið hafi ákveðið að ganga frekar til samninga við sjóðinn um lán heldur en að draga að fullu á lánalínur við íslenskan banka. Lánið við sjóðinn er á mun hagstæðari kjörum en hefði fengist með nýju bankaláni.

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar segir að hagræðingin sem fæst vegna lánstöku hjá sjóðnum nemi tugum milljóna króna á ári samanborið við þá fjármögnun sem gert hafi verið ráð fyrir.