Hagnaður Lánasjóðs sveitarfélaga nam á síðasta ári 715 milljónum króna samanborið við 816 milljónir króna árið 2012.  Megin skýring lækkunar hagnaðar er 99,5 milljóna króna niðurfærsla í rekstri sjóðsins vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur varðandi erlent lán til Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Sjóðurinn hefur áfrýjað þeirri niðurstöðu til Hæstaréttar.

Heildareignir sjóðsins í lok ársins voru 77.095 milljónir króna samanborið við 70.212 milljónir króna í árslok 2012. Útlán sjóðsins námu 69.316 milljónum króna í lok ársins samanborið við 60.542 í árslok 2012. Þá nam eigið fé 15.777 milljónum króna á móti 15.470 milljónum króna í árslok 2012 og hefur aukist um 2,0% á árinu.  Vegið eiginfjárhlutfall samkvæmt Basel II um eigið fé fjármálafyrirtækja er 67% en var 64% í árslok 2012.

Umsvif í rekstri sjóðsins voru umfram væntingar á árinu 2013 þar sem meiri eftirspurn var eftir lánum samanborið við undanfarin ár, segir í tilkynningu. Útboð sjóðsins gengu vel og voru vaxtakjör þau bestu sem sjóðnum hefur boðist á síðustu árum. Hagnaður ársins lækkaði lítillega á milli ára sem skýrist af fyrrnefndri varúðarniðurfærslu vegna erlends láns sem var ekki í samræmi við væntingar.