Lánasjóður sveitarfélaga hagnaðist um 310 milljónir króna á fyrri hluta ársins samanborið við 432 milljónir króna á sama tíma í fyrra og dróst hann því saman um 122 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu sjóðsins til Kauphallarinnar. Breytingin á milli ára skýrist af lægri hreinum vaxtatekjum og neikvæðum gjaldeyrismun.

Heildarútlán jukust um 24% á fyrri hluta ársins

Heildareignir Lánasjóðsins þann 30. júní voru 96.906 milljónir króna samanborið við 85.707 milljónir króna í árslok 2017. Mikil aukning varð á útlánum á fyrri hluta ársins í tengslum við uppgjör sveitarfélaga á lífeyrisskuldbindingum en heildarútlán jukust um 17,6 milljarða eða sem nemur 24%.

Á síðustu 12 mánuðum nam útlánaaukningin 22 milljörðum eða 32%. Markaðsverðmæti verðbréfaútgáfu á fyrri hluta ársins var 13,4 milljarðar en 23,4 milljarðar á síðustu 12 mánuðum.

Vegið eiginfjárhlutfall 81%

Þá nam eigið fé 17.364 milljónum króna á móti 17.459 milljónum króna í árslok 2017. Vegið eiginfjárhlutfall samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er 81% en var 97% í árslok 2017 en lækkunina má einna helst rekja til aukinnar útlánaáhættu.

Lánasjóður sveitarfélaga sér fram á að veitt útlán á árinu 2018 verði talsvert umfram síðustu ár, annars vegar vegna lánveitinga á fyrri hluta ársins og hins vegar vegna almennt aukinnar eftirspurnar eftir útlánum sem fyrirséð eru á seinni helmingi ársins. Búist er við að verðbréfaútgáfa muni að miklu leyti aukast í takt við útlánavöxt en vísað er í uppfærða útgáfuáætlun sjóðsins sem finna má á heimasíðu hans.

Lánasjóðurinn mun starfa í meginatriðum líkt og undanfarin ár þar sem unnið hefur verið að eflingu á starfsemi hans og aukinni þjónustu við sveitarfélögin með því að nýta gott lánstraust sjóðsins til að útvega sveitarfélögunum lánsfé á hagstæðum kjörum.