Íslandsbanki býður nú viðskiptavinum sínum lán á 5,75% óverðtryggðum vöxtum. Lánin sem um ræðir nefnast Framkvæmdalán og er lánsfjárhæð að hámarki 1,5 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka eru vextir á sambærilegum lánum um 9,25%.  Viðskiptavinum bjóðast lánin nú vegna átaksins Allir vinna sem stjórnvöld í samvinnu við hagsmunaaðila í atvinnulífinu standa fyrir.

Ekki áhyggjur af misnotkun

Þegar lán býðst á svo góðum vaxtakjörum vakna upp spurningar um hvort ekki sé möguleiki á misnotkun og hvort einstaklingar sjái sér einfaldlega hag í að eyða lánsfénu í eitthvað annað en framkvæmdir, til dæmis í að endurgreiða eldri skuldir.

Hjá Sigrúnu Hjartardóttir hjá Íslandsbanka fengust þær upplýsingar að ekki séu hafðar stórar áhyggjur af mögulegri misnotkun vegna þess að skilyrði fyrir útgreiðslu framkvæmdaláns er að lagðar séu fram kvittanir fyrir framkvæmdarkostnaði. Einstaklingur sem hyggst taka lán þarf því að leggja út fyrir framkvæmdunum sjálfur. Sigrún segir að þó einstaklingur þurfi að greiða kostnað áður en lán er veitt þá brúi bankinn það bil ef þess er óskað. „Tíminn ætti ekki að þurfa að vera langur frá framvísun reikninga til útgreiðslu lánsins,“ segir Sigrún.

Lánar út allt að milljarð

Aðspurð um hvernig bankinn geti boðið svo lága vexti segir Sigrún að hjá Íslandsbanka sé það metið svo að til mikils sé að vinna fyrir alla ef hægt er að koma atvinnulífinu af stað. Bankinn líti svo á að þetta sé ásættanlegur kostnaður í ljósi þeirra hagsmuna.

Samkvæmt kostnaðaráætlunum bankans er gert ráð fyrir að allt að einn milljarður fari í útlán í tengslum við verkefnið Allir vinna. „Sem stendur er þetta í boði til 30. september en bankinn mun auðvitað meta stöðuna eftir því hver eftirspurnin verður og vonar auðvitað að sem flestir nýti sér þetta tækifæri og þau góðu kjör sem í boði eru,“ sagði Sigrún í samtalið við Viðskiptablaðið.