Gæði lánasafna íslenskra banka eru ekki enn nógu mikil þrátt fyrir þann mikla árangur sem náðst hefur við úrvinnslu skuldavanda fyrirtækja og einstaklinga, að sögn Monica Caneman, formnns stjórnar Arion banka.

Á aðalfundi bankans, sem haldinn var í dag, vék Caneman að því sem einna helst skilur aðstæður á Íslandi frá viðskiptaumhverfi í mörgum öðrum ríkjum. Þar sé fyrst að nefna gjaldeyrishöftin. Monica sagði höftin hafa gegnt mikilvægu hlutverki en nauðsynlegt væri að skapa hér aðstæður sem gerðu kleift að afnema höftin.

Hvað varðar gæði lánasafnanna sagði hún að hlutfall lána í vanskilum og niðurfærðra lána væri hærra hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum en almennt gerist erlendis. Hjá Arion banka er þetta hlutfall um 12,5% en lán í vanskilum nema þar af um 6%. Monica lagði áherslu á að áfram yrði unnið í þessum málum og að gera mætti ráð fyrir að góður árangur næðist á yfirstandandi ári. Markmið bankans væri að ná þessu hlutfalli niður í um 5%.

Þá lagði hún áherslu á að auka þurfi fjárfestingu á Íslandi. Benti hún í því sambandi á þá óvissu sem hér á landi hafi ríkt um framtíðarskipan sumra af lykilatvinnuvegum landsins. Þeirri óvissu þurfi að eyða sem fyrst til að auka tiltrú fjárfesta, jafnt innlendra sem erlendra, á íslenskt efnahagslíf og stuðla þannig að aukinni fjárfestingu hér á landi.

Hvað varðar umræðuna um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabanka sagði hún að mikilvægt væri að hér á landi yrðu ekki settar séríslenskar reglur sem settu starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja þrengri skilyrði en gengur og gerist í nágrannalöndum Ísland. Íslenskir bankar séu í samkeppni við erlendar fjármálastofnanir þegar kemur að þjónustu við stærstu fyrirtæki landsins og mikilvægt sé að skerða ekki samkeppnishæfni þeirra.