Stofnefnahagsreikningar nýju bankanna, sem eru meðal þeirra gagna sem Víglundur Þorsteinsson hefur sent Alþingi, sýna að lánasöfn voru færð yfir í nýju bankana með miklum afslætti. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Víglundur Þorsteinsson lögfræðingur sendi á fimmtudag öllum þingmönnum greinargerð og gögn sem hann telur sýna að síðasta ríkisstjórn hafi brotið lög þegar verðmæti þeirra eigna sem færðar voru yfir í nýju bankana var ákveðið, í kjölfar setningar neyðarlaganna. Þannig hafi lán verið innheimt á nafnverði í nýju bönkunum, sem áður höfðu verið afskrifuð að hluta.

Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að samantekt vegna stofnefnahagsreiknings Nýja Kaupþings banka sýni að lán með veði í fasteignum hafi verið færð niður um 50 prósent. Sambærileg samantekt vegna stofnefnahagsreiknings Nýja Glitnis banka sýni að niðurfærsla eða rýrnum sem hlutfall heildarlána sé 40 prósent.

Brynjar Níelsson, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vinnur nú minnisblað fyrir nefndina um það hvort eitthvað sé hæft í ásökunum Víglundar.