Viðskiptaráð Íslands, VÍ, kallar eftir að næsta ríkisstjórn setji raunverulegan kraft í einföldun regluverks og framkvæmi allsherjarátak „svo íslensk fyrirtæki þurfi síður að takast á við óþarflega íþyngjandi og kostnaðarsama reglubyrði sem á endanum skerðir hag og lífskjör almennings“.

Samtökin benda á að áhersla á einfaldara og skilvirkar regluverk hafi verið meðal loforða síðustu ríkisstjórnar. Í grein sem birtist á vef Viðskiptaráðs í morgun er fagnað að einstaka ráðuneyti hafi ráðist í slíkar aðgerðir en markvissar aðgerðir í þágu einföldunar regluverks hafi setið á hakanum og staða Íslands í alþjóðlegum samanburði staðið í stað.

Viðskiptaráð telur nauðsynlegt að öllum frumvörpum fylgi mat á efnahagslegum áhrifum á fyrirtæki, skilgreina þarf markmið íþyngjandi lagasetningar og rökstyðja að því verði ekki náð með minna íþyngjandi leiðum. Þá sé mikilvægt er að ekki sé farið umfram lágmarkskröfur við innleiðingu ESB regluverks og bæta þurfi almenna umgjörð í kringum leyfisveitingar og eftirlit.

„Íslensk stjórnvöld innleiða reglulega regluverk ESB með meira íþyngjandi hætti en þörf er á til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar.“ Þetta kom fram í úttekt forsætisráðuneytisins árið 2016 og Viðskiptaráð telur að enn sé að finna slík dæmi, þar á meðal við innleiðingu GDPR persónuverndarreglugerðina árið 2018 þar sem „gengið [var] lengra en þörf var á“.

Ísland í neðsta sæti á lista OECD

Bent er á að niðurstöður úttektar IMD háskólans á samkeppnishæfni ríkja sýna að Ísland er eftirbátur Norðurlanda þegar kemur að því að skapa regluumgjörð sem tryggir hagfellt viðskiptaumhverfi. Ísland hafi fallið um eitt sæti á listanum á síðasta kjörtímabili. „Lítið bendir því til að regluverk viðskiptaumhverfis á Íslandi sé að skána þrátt fyrir fyrirheit síðustu ríkisstjórnar,“ segir Viðskiptaráð.

Einnig bendir Viðskiptaráð á að Ísland vermi enn neðsta sæti á lista OECD yfir vísitölu regluverks í þjónustugreinum. OECD telur að aðgerðir sem auka skilvirkni regluverks um helming gætu skilað sér í 15% lægri viðskiptakostnaði í þjónustu yfir landamæri innan fárra ára. Vegna þess hve miklar þessar hömlur vegna regluverks eru hérlendis gæti kostnaðurinn lækkað um 28%.

Mynd tekin úr grein Viðskiptráðs.