Kínverski efnaframleiðandinn Jiangsu Sailboat Petrochemicals hefur undirritað samning við íslenska tæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) um byggingu verksmiðju til framleiðslu á metanóli með endurvinnslu koltvísýrings. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 35 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði um 4,6 milljarða íslenskra króna. Með búnaði CRI verða 150.000 tonn af koltvísýringi, sem fönguð eru úr efnaferli Jiangsu Sailboat, nýtt til að framleiða um 100.000 tonn af metanóli, en vetni til framleiðslunnar er fengið úr öðrum úrgangsstraumi verksmiðjunnar.

Þetta magn koltvísýrings jafngildir allri losun virkjana á Íslandi, eða fjórðungs bíla á íslenskum heimilum. Þá dregur framleiðsla metanóls með aðferð CRI úr þörfinni fyrir metanól sem framleitt er úr kolum í Kína og stuðlar því að enn frekari samdrætti í losun.

Verksmiðja Jiangsu Sailboat, sem staðsett er Shenghong, einum stærsta efnagarði heims, í borginni Lianyungang, í Jiangsu héraði fyrir norðan Shanghai, nýtir metanólið til að framleiða fjölbreyttar efnavörur sem meðal annars eru hráefni við framleiðslu á sólarhlöðum og plexigleri. Stefnt að því að framleiðsla með tækni CRI hefjist árið 2023.

Jiangsu Sailboat Petrochemical er dótturfyrirtæki Shenghong Petrochemicals, eins stærsta fyrirtækis Jiangsu héraðs. Fyrirtækið framleiðir etýlen og própýlen úr metanóli, í stærstu verksmiðju sinnar tegundar. Þessi byggingarefni eru síðan nýtt til framleiðslu á fjölbreyttri efnavöru. Fyrirtækið framleiðir um 2.4 milljónir tonna á ári og heildartekjur samsteypunnar námu um 45 milljörðum bandaríkjadala á síðasta ári.

Tækni CRI var hönnuð í rannsóknarstofu hér á landi og síðar þróuð og sannreynd í verksmiðju CRI í fullri stærði, við orkuverið í Svartsengi, sem gangsett var árið 2012. Um er að ræða fjórða verkefni CRI utan landsteinanna og annað verkefnið í Kína, en fyrirtækið er senn að ljúka uppsetningu sambærilegrar verksmiðju í borginni Anyang, í Henan héraði.

Ingólfur Guðmundsson, forstjóri CRI:

„Við hjá CRI erum afar stolt af því að geta boðið samstarfsaðilum okkar þaulreynda tækni sem gerir strax áþreifanlegt gagn í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Með því að nýta þessa tækni í efnaframleiðslu getum við fyrr leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi. Það sem áður fór til spillis verður að orku og hráefni. Þannig byggjum við upp öflugt en umhverfisvænna hagkerfi.”

Wei Bai, forstjóri Jiangsu Sailboat:

„Þetta verkefni samræmist fullkomlega stefnu Shenghong Petrochemical um virka þróun hringrásarhagkerfisins. Við leggjum áherslu á örugga þróun, minni losun og hagfellda notkun takmarkaðra auðlinda, með endurnýtingu. Hér er stigið stórt skref í áætlun okkar um að byggja upp græna virðiskeðju, með bestu nýtingu hráefna, hreinni framleiðslu og að verða leiðandi fyrirtæki í heiminum á þessu sviði.“

Samningur um samstarfið verður undirritaður mánudaginn 27. september á fjarfundi milli Reykjavíkur og Peking, að viðstöddum Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi og Þóri Ibsen, sendiherra Íslands í Kína, auk fjölda gesta frá kínverskum stjórnvöldum og fyrirtækjum.