Vestmannaeyjaskipin, Bergey VE og Vestmannaey VE, hafa að undanförnu verið að veiðum fyrir austan land. Skipin hafa undanfarin ár venjulega haldið austur fyrir til veiða um miðjan september og fiskað þar fram að jólum og jafnvel fram yfir áramót.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og Jón Valgeirsson, skipstjóra á Bergey, í morgun. Birgir Þór sagði að Vestmannaey hefði landað nánast fullfermi á Seyðisfirði sl. mánudag. „Þetta var stór og afar fallegur fiskur, nánast eingöngu þorskur og ýsa. Þorskurinn var gjarnan 8-10 kg. og ýsan var líka býsna myndarleg. Í þessum túr byrjuðum við að veiða grunnt á Tangaflakinu og héldum síðan norður í Skáp við Glettinganesflak. Veiðin gekk býsna vel en svo brældi og þá fórum við í land með aflann. Við héldum út að löndun lokinni og lentum þá í brasi; festum trollið og þurftum að slæða það upp. Núna erum við í Litladýpinu í reytingsveiði. Við gerum ráð fyrir að landa, líklega á Norðfirði, næstkomandi föstudag,“ segir Birgir Þór.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, tekur undir með Birgi Þór og segir að fiskurinn fyrir austan hafi verið stór og fallegur. „Við lönduðum í gær um 60 tonnum á Norðfirði. Aflinn var þorskur og ýsa. Þorskinn fengum við á Glettinganesflakinu og ýsuna á Tangaflakinu. Við fórum út strax eftir löndun og erum núna að trolla í Litladýpi. Aflinn er fínasti þorskur en þetta er dálítið ufsaborið. Við reiknum með að landa fyrir austan á föstudagsmorgun,“ segir Jón.