Hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækið Landark hefur sameinast EFLU verkfræðistofu. Landark hefur frá árinu 1983 starfað á sviði landslags- og skipulagsmála og hafa fyrirtækin átt í góðu samstarfi um langt skeið segir í fréttatilkynningu.

Landark hefur getið sér gott orð fyrir landslagshönnun í sinni fjölbreyttustu mynd og kemur sameiningin til með að styrkja enn frekar starfsemi EFLU á sviði landmótunar, hönnunar og skipulagsmála.

Nýtt fagsvið, Landark

Við þessar breytingar verður til hjá EFLU nýtt fagsvið, Landark, og verður Pétur Jónsson, sem áður var framkvæmdastjóri Landark, fagstjóri sviðsins. Aðrir starfsmenn sem störfuðu hjá Landark verða einnig hluti af nýja fagsviðinu.

Nýja fagsviðið hefur komið sér vel fyrir í höfuðstöðvum EFLU að Lynghálsi 4 og hefur teymið fengið ný netföng og símanúmer. Sem fyrr verður lögð rík áhersla á að veita góða, alhliða þjónustu, hagkvæmar lausnir og vönduð vinnubrögð segir jafnframt í tilkynningunni.

Um Eflu

Viðskiptavinir EFLU spanna flest svið samfélagsins, bæði opinberir aðilar, stofnanir og fyrirtæki, í raun atvinnulífið allt í sinni fjölbreyttustu mynd. Kjarninn í þjónustunni snýr að ráðgjöf við uppbyggingu og rekstur innviða samfélagsins ásamt stuðningi við framþróun atvinnulífsins. EFLA leggur mikið upp úr að bjóða öfluga þjónustu um allt land sem byggir á góðri samvinnu allra starfsstöðva.

EFLA verkfræðistofa er alhliða ráðgjafarfyrirtæki í verkfræði, tækni og tengdum greinum með yfir 400 starfsmenn. Slagorð fyrirtækisins er „allt mögulegt“ sem vísar bæði til fjölbreytninnar í starfseminni og þess lausnamiðaða hugarfars sem viðhefst í nálgun við viðskiptavini og viðfangsefni. Á Íslandi eru höfuðstöðvar félagsins í Reykjavík, en EFLA hefur að auki starfsstöðvar á Selfossi, Hellu, Reykjanesbæ, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Seyðisfirði, Þórshöfn, Húsavík og Akureyri.