Hagnaður Landsbankans á árinu 2014 nam 29,7 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 28,8 milljarða króna á árinu 2013. Arðsemi eiginfjár eftir skatta á árinu 2014 var 12,5%. Hreinar vaxtatekjur bankans lækkuðu verulega milli ára, eða um 6,2 milljarða króna og vaxtamunur var 2,4% af meðalstöðu heildareigna árið 2014 samanborið við 3,1% árið áður. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi 2014 nam 9,8 milljörðum króna samanborið við 6,5 milljarða króna á sama fjórðungi 2013. Kemur þetta fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Heildareignir bankans lækkuðu um 53,1 milljarð króna á milli ára og stóðu í árslok í 1.098 milljörðum króna. Útlán jukust um 6% á árinu og voru í árslok 718 milljarðar króna. Aukningin byggist fyrst og fremst á mikilli aukningu í íbúðalánum. Vanskil útlána voru 2,3% í árslok og lækkuðu verulega á árinu. Í samræmi við sett markmið, hefur eign bankans í hlutabréfum, hlutdeildarfélögum og eignum til sölu lækkað verulega á árinu, eða um 27 milljarða króna.

Innlán frá viðskiptavinum voru í árslok 551,4 milljarðar króna og jukust verulega á árinu, en innlán frá fjármálafyrirtækjum minnka að sama skapi. Eigið fé bankans stóð í 250,8 milljörðum króna í árslok og hækkaði um 9,4 milljarða þrátt fyrir að greiddur hafi verið um 20 milljarða króna arður til hluthafa á árinu 2014. Eiginfjárhlutfall bankans (e. Capital Adequacy Ratio) byggir eingöngu á eiginfjárþætti A og var 29,5 í árslok, en var 26,7% í lok árs 2013.

Í tilkynningunni er haft eftir Steinþóri Pálssyni bankastjóra að afkoma Landsbankans á árinu 2014 hafi verið góð og fjárhagsstaðan sé traust. „Eiginfjárhlutfallið er með því hæsta sem þekkist meðal banka um víða veröld og lausafjárstaðan með ágætum, þrátt fyrir að bankinn hafi greitt út 20 milljarða króna arð til hluthafa á árinu, töluverðan útlánavöxt og verulega fyrirframgreiðslu inn á skuld bankans við LBI hf.,“ segir hann. Þá segir hann að á aðalfundi verði lagt til að greiða hluthöfum arð að fjárhæð tæplega 24 milljarða króna. Samanlagðar arðgreiðslur bankans vegna síðustu þriggja rekstrarára muni því nema um 53,5 milljörðum.