MS nám í skipulagfræði hefst við Landbúnaðarháskóla Íslands í haust. Hérna er um nýtt og spennandi nám að ræða, sem hefur ekki verið í boði á Íslandi áður. Dr. Sigríður Kristjánsdóttir skipulagsfræðingur segir að eftir hrunið í haust þá séu margir þættir í þjóðfélaginu sem þarfnist endurskoðunar fyrir utan fjármálakerfið. „Það líka er alveg þörf á endurskoða skipulagskerfið og hvernig það hefur verið að virkað eða ekki að virka.

Á meðan bólan var og allt á fullu var búinn að vera mjög mikill þrýstingur á fólk sem hefur verið að vinna í þessum geira. Það hafði bara ekki tíma til að hugsa þannig að nú er fólk meira tilbúið að fara að horfa gagnrýnum augum í kringum sig og endurmeta hvað megi betur fara."

Skipulagsfræði er sjálfstæð fræðigrein, en henni tengist fjöldi annarra greina sem koma að skipulagsfræði. Hér má nefna lögfræði, félagsfræði, hagfræði, landfræði, náttúrufræði, sagnfræði, arkitektúr og verkfræði. Miðað er við að meistaranám í skipulagsfræðum við LbhÍ verði framsækið nám sem samtvinnar faglega þætti og íslenskar aðstæður.

„Þetta nám er hugsað bæði fyrir ungt fólk sem vill bæta við sína menntun og einnig nýtist þetta fólki sem er að starfa í þessum málum án þess að vera menntað sem skipulagsfræðingar. Í dag eru hérlendis rétt rúmlega 20 menntaðir skipulagsfræðingar.

Á Íslandi er mikið um að í skipulagsmálin hefur ráðist fóks sem kemur í hinum ýmsu fagstéttum en er sjálfmenntað í skipulagsmálum. Hugmyndin með því að vera með þetta í samvinnu við Endurmenntun er að gefa þessu fólki kost á að bæta sig og vera betur í stakk búið til að sinna sínu starfi. Það getur þá líka tekið meistaranám í þessu og bætt skipulagsfræðingi við sinn þekkingargrunn."

Námið er bæði sett upp sem fullt nám en einnig gefst fólki kostur á að taka námskeið í gegnum endurmenntun. Er námið viðurkennt af Skipulagsfræðingafélagi Ísland og að fenginni starfsreynslu getur viðkomandi sótt um réttindi til að starfa sem skipulagsfræðingur. Segir Sigríður að oft verði kennt aðra hverja helgi og námið fari þá  fram eftir hádegi á föstudögum og 9 til 5 á laugardögum. Það ætti því að vera tiltölulega auðvelt fyrir fólk af landsbyggðinni að sækja þetta nám.