Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, sagði að það væri reynsla bankans að skilvísustu greiðendurnir kæmu úr landbúnaðinum. Þetta kom fram þegar gengið var frá kaupum Landsbankans á Lánasjóði landbúnaðarins í dag. Með í kaupunum fylgja 10.000 lán hjá 3.000 lántakendum.

Þess má geta að Landsbankinn átti hæsta tilboðið en tilboð þeirra var 29 milljónum króna hærra en tilboð KB banka sem átti næst hæsta tilboðið. Landsbankinn greiðir 2.653 milljónir króna fyrir Lánasjóðinn.