Stjórn Landssamtaka landeigenda á Íslandi hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún lýsir yfir undrun sinni og vonbrigðum með að „ríkisvaldið skuli ekki draga lærdóm af úrskurði óbyggðanefndar varðandi austanvert Norðurland og afturkalla fráleitar landakröfur sínar á vestanverðu Norðurlandi.“

Í yfirlýsingu Landssamtaka landeigenda segir að með úrskurði óbyggðanefndar 6. júní síðastliðinn hafi verið staðfest sjónarmið landeigenda um að ríkið fari fram með rakalausri hörku í þjóðlendumálum. Því sæti furðu að fjármálaráðherra skuli ekki afturkalla kröfur sínar gagnvart landeigendum á vestanverðu Norðurlandi þegar í stað, enda séu kröfurnar í engu samræmi við boðskap fjármálaráðherra sjálfs í febrúar 2008 um að ríkið ætlaði eftirleiðis að fara hægar í sakirnar í þjóðlendumálum en áður.