Áhöfn dýpkunarskipsins Dísu var send til Landeyjahafnar í gær til að dæla sandi úr höfninni, en þurfti frá að hverfa vegna mikillar ölduhæðar. Síðast var reynt að dæla sandi úr höfninni í byrjun febrúar og hefur það ekki gengið síðan.

„Hún er bara stútfull af sandi, það er það eina sem hægt er að segja um hana,“ segir Óttar Jónsson, skipstjóri dýpkunarskipsins Dísu, í samtali við Morgunblaðið spurður um ástand hafnarinnar.

Fyrirtækið Viking Tours er það eina sem hefur getað nýtt sér höfnina að undanförnu. Sigmundur G. Einarsson, eigandi fyrirtækisins, segir það geta nýtt höfnina þar sem báturinn risti aðeins 2,6 metra.