Fjárfestingarbankasvið Arion banka hf. lauk í gær vel heppnuðu útboði á nýjum skuldabréfaflokki Landfesta ehf., LF 14 1. Um er að ræða verðtryggðan skuldabréfaflokk til 30 ára sem er tryggður með veðum í fasteignasafni Landfesta ehf. og ber flokkurinn 3,9% nafnvexti.

Heildarfjárhæð útboðsins nam 12.500 milljónum króna og samkvæmt tilkynningu frá Arion var veruleg umframeftirspurn í útboðinu. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka mun hafa umsjón með skráningu flokksins á Aðalmarkað NASDAQ OMX Iceland hf. en stefnt er að því fyrir árslok.

Fyrirhuguð er sameining Landfesta ehf. og Eikar fasteignafélags hf. en kaupsamningur á milli Arion banka hf. og Eikar fasteignafélags hf. um kaup á öllu hlutafé Arion banka í Landfestum var undirritaður 20. desember 2013.

Eftir kaupin verður Eik fasteignafélag eitt af stærstu fasteignafélögum landsins með um eitt hundrað eignir sem telja um 272 þúsund fermetra. Efnahagur sameinaðs félags verður um 60 milljarðar króna. Stefnt er að skráningu hlutafjár Eikar fasteignafélags á Aðalmarkað NASDAQ OMX Iceland hf. þegar til þess bær yfirvöld hafa fjallað um kaupin.